top of page

Create Your First Project

Start adding your projects to your portfolio. Click on "Manage Projects" to get started

Viðtal í DV 2014

Óttast ekki dauðann

Katrín dáleiðir fólk og ferðast með það í fyrri líf. Misjafnt hvað situr eftir.

“Ég hugsa að við séum flest að minnsta kosti búin að lifa 50 sinnum. Sum oftar. Stundum lifum við stuttum lífum, stundum löngum og það er misjaft hvað situr eftir í fólki,” segir Katrín Axelsdóttir Sandholt dáleiðari sem sérhæfir sig í fyrri lífum.

Opna á týndar minningar

Katrín lærði fag sitt í Sviþjóð og segir Svía mun opnari fyrir þessum hugmyndum en Íslendinga en segir landa sína þó forvitna.
Hún segir dáleiðara ekki tengjast miðlum og líkir dáleiðslu við hugleiðslu. “Þetta tengist ekki því að vera skyggn. Þetta er dáleiðslutækni sem er notuð af sálfræðingum og geðlæknum til að opna fyrir týndar minningar. Þegar dáleiðarar voru að fara með fólk til baka til ákveðinna erfiða tímabila í æsku reyndust sumir fara enn lengra þegar þeim var sagt að að fara til baka.
Þannig byrjaði þetta.
Þegar ég fæ til mín kúnna byrja ég á því að koma honum í djúpslökun og leiði hann svo áfram í fyrri líf. Það tekst oftast. Ég held ég hafi aðeins lent í því einu sinni að það hafi ekki tekist í fyrsta skiptið. Það er samt misjafnt hvað fólk þarf langan tíma til að ná að slaka á.”

Dó við matarborðið

Katrín segist sjálf hafa lifað margoft.
“Ég upplifi mig til að mynda í frönsku uppreisninni. Þá var ég karlmaður og það sem situr sterkast eftir er þegar ég dó. Þá hafði ég verið í veislu með fullt af öðru fólki og það virðist sem það hafi verið eitrað fyrir okkur. Við létumst öll við matarborðið,” segir hún og viðurkennir að hún hafi átt erfitt með að neyta matar sem sé vafasamur. “Ég hef til dæmis aldrei haft lyst á að borða mat sem hefur setið á bekk yfir nótt en eftir að ég upplifði þetta leystist um það. Um það snýst dáleiðsla, að losa um. Þá fer af stað sjálfslækningarferli, maður verður meðvitaður um að óttinn er ekki raunhæfur. Hann átti sér ástæðu en nú er sú ástæða farin.”

Hamingja í stað hluta

Katrín man einnig eftir sér sem ungri konu á Ítalíu með lítil börn. ´”Ég er ekki viss hvenær en ég bjó við fátækt. Ég man helst eftir að hafa verið að hengja upp þvott, hvernig lyktin var og krakkarnir hlaupandi um,” segir hún og bætir við að hún hafi einnig lifað á Grikklandi. “Ég er búin að vera úti um allt. Þetta gefur manni allt aðra heildarsýn á lífið. Ég óttast til dæmis ekki að deyja og það er mjög gott fyrir fólk sem er lífshrætt að fá að vita að við höfum gert þetta áður og munum gera þetta aftur. Þannig minnkar mikilvægi þessa lífs og verður til þess að við reynum að fá sem mest út úr þessu lífi og við getum og leitum hamingjunnar í stað þess að gleyma okkur í veraldlegum hlutum. Svo er líka gott að vita að það er hægt að hitta ástvini sem fóru snemma aftur,” segir hún og bætir við að sjálf viti hún að dauðinn er ekkert annað en endalaust form af hamingju og ást.

Sálir fylgjast að

Sjálf á Katrín einn son. “Ég hef örugglega verið með honum áður þótt ég hafi ekki fundið neitt um það. Það hlýtur að vera. Mér líður þannig með honum. Hann er ekki nýr fyrir mér. Við hittum oft sömu sálirnar aftur og aftur og í alls konar hlutverkum. Svo hef ég líka tekið eftir að á milli lífa er fólk jafnvel að fylgjast með sálarvinum sínum á jörðinni. Við erum því verndarar samhliða því sem við förum inn í annað líf.”
Katrín segist vel skilja þá sem séu skeptískir á þessi fræði. “Auðvitað eru margir sem trúa þessu ekki enda er erfitt að gera sér fullkomlega grein fyrir þessu. Það er svo margt sem við skiljum ekki og ekki til neinar áþreifanlegar sannanir, fyrir utan eigin upplifun og sögur annarra,” segir hún en bætir við að áhuginn fari ört vaxandi.

Hægt er að hafa samband við Katrínu á facebook-síðu hennar, Fyrri Lífs Dáleiðsla, eða í gegnum netfangið daleidsla@gmail.com

Indíana Ása Hreinsdóttir

bottom of page