top of page

Create Your First Project

Start adding your projects to your portfolio. Click on "Manage Projects" to get started

Viðtal í Hann/Hún 2008

Höfum við verið hér áður? Sú spurning hefur leitað á menn frá örófi alda og ekki hvað síst vegna þess að hafi sálin verið í jarðvist fyrr er nánast fullvíst að hún komi aftur. Regression Therapy er leið til að komast að því hvort maður hafi lifað áður og hversu mikinn farangur úr fyrri lífum maður beri á bakinu í þessu. Katrín Axelsdóttir, fyrri lífaþjálfi/dávaldur, veit meira um þessi mál.

Texti: Steingerður Steinarsdóttir

Katrín bloggar á slóðinni daleidsla.bloggar.is og þar kemur fram ýmislegt um hana sjálfa en hvar lærði hún þessi fræði?
„Ég lærði í Svíþjóð. Ég lærði hjá manni sem heitir Ola Sahlin. Heimasíða hans er ww.olasahlin.se. Að vísu er þar allt á sænsku en margir Íslendingar geta notfært sér það. Ola lærði í Bretlandi og var samtíða einum öðrum þjálfa en þeir voru fyrstir til að vinna með
þessa aðferð í Svíþjóð. Regression Therapy er viðurkennd víða um
heim m.a. í Bretlandi og Bandaríkjunum og fimmtán ára starf Ola
hefur skilað fræðunum miklu í Svíþjóð. Þar er þetta bæði vel þekkt og mikið notað.“
Hvert var upphafið að þessu?
„Þetta byrjaði hjá bandarískum geðlæknum og hefur verið notað
í meira en þrjátíu ár. Í upphafi var fyrst og fremst miðað við það líf sem við lifum í dag og fólk beðið að fara aftur í æsku sína til að leita róta ýmissa vandamála sem hrjáðu það. Margir fóru hins vegar enn lengra aftur þ.e. til fyrri lífa og sumir geðlæknar töldu sig ekki geta
litið framhjá þeim upplifunum.”

Heilluð af dáleiðslu

Hvað kveikti áhuga þinn á þessu?
„Ég hef alltaf haft áhuga á andlegum málefnum en þegar mig dreymdi fyrra líf mitt og rakst skömmu síðar á auglýsingu um námskeið hjá Ola Sahlin ákvað ég að fara. Ég fékk að fara á
námskeiðið en dáleiðsla hefur alltaf heillað mig. Segja má að þetta hafi allt verið hálf tilviljanakennt en eitt leiddi af öðru.“
Varstu þá viss um það í draumnum að þú værir að hverfa aftur til fyrra lífs? Gat þetta ekki allt eins verið venjulegur draumur? „Nei, ég var algerlega hundrað prósent á því. Í heila viku eimdi eftir af tilfinningunum sem ég upplifði og mér fannst ég hafa misst eitthvað. Ég missti mann sem mér var mjög kær í því lífi og fyrst eftir að mig dreymdi þetta bjóst ég fastlega við því að hann kæmi inn í líf mitt aftur. Undirmeðvitundin var mjög vakandi fyrir því og það var vissulega mjög undarleg tilfinning. Það gerðist hins vegar
ekki og enn hef ég ekki hitt hann aftur.“
Margt hefur verið skráð og rannsakað í tengslum við fyrra lífs upplifanir. Þess eru jafnvel dæmi að fólk hafi skrifað sjálfsævisögur
sem byggjast á fyrra lífi en ekki því sem það lifir í nútímanum. Þekkir þú einhvern sem hefur upplifað svo sterkar minningar eða sannreynt að slíkar minningar séu raunverulegar?
„Það er rosalega algengt að fólk upplifi brot af fyrri lífum í draumi. Ég get ekki sagt að ég þekki neinn sem hefur séð eða fengið slíkar minningar í vakandi ástandi. Ég kannast hins vegar við frásagnir af slíku. Fólk getur oft fundið út hvar það hefur verið áður og ratað um borg sem
það hefur aldrei verið í áður. Það hefur einnig gerst að fólk teikni upp kort sem ekki passa
við aðstæður eins og þær eru en þegar betur er skoðað sést að kortið er fullkomlega rétt
miðað við staðhætti eins og þeir voru áður.“

Alltaf einhver árangur

Hvaða árangurs er að vænta af svona Regression Therapy?
„Það er mismunandi eftir fólki. Oft ganga menn með flækjur úr fyrri lífum innra með sér. Þetta geta verið hegðunarmynstur sem erfitt er að brjóta, ofsahræðsla eða fælni gagnvart tilteknum aðstæðum sem engin skýring finnst á eða líkamleg meiðsl. Þegar
menn komast að því hvaðan slíkt kemur er iðulega hægt að vinna úr því og lifa betur með því.“

Hvað er það stórkostlegasta sem þú hefur séð gerast í tengslum við þessa meðferð? „Það er alltaf viss árangur. Fólk sér yfirleitt strax eitthvað og segir gjarnan þegar það fer héðan: „Okei, þess vegna geri ég þetta og ástæðan fyrir þessu er þá svona einföld.“ Þegar ég var að læra varð ég vitni að því að ein stúlkan sem ég dáleiddi upplifði að hún væri hestur. Það þótti mér bæði sérstakt og gaman. Hún hafði alltaf laðast mjög sterkt að indíánum og í því lífi var hún hestur í indíánaþorpi. Lengi vel hélt ég að hún væri manneskja en þegar ég bað hana að líta á
fætur sínar sá hún feld, engu að síður voru tilfinningarnar sterkar, og hún skynjaði mjög vel allar upplifanir. Þetta er í eina skiptið sem ég hef orðið vitni að því að manneskju hafi áður verið dýr.“

Mismunandi upplifanir

Katrín tekur á móti fólki á heimili sínu í Kópavogi og þar er mjög notalegt
andrúmsloft. Til að komast betur að því hvernig þessi meðferð fer fram fóru tveir starfsmenn hann/hún í dáleiðslu til hennar og upplifðu mjög mismunandi hluti.
„Mér fannst ég standa svolítið utan og ofan við þetta allt,“ segir eldri kona. „Það kviknuðu myndir en stundum var allt svart þar til Katrín sagði eitthvað og stundum var ég ekki viss hvort þær kæmu upp í hugann vegna einhvers í umhverfinu eða hvort ég upplifði atburðina raunverulega. Aðeins einu sinni fannst mér ég vera inni í líkama annarrar manneskju og sjá með hennar augum. Þá fann ég til í fótunum og þegar ég leit niður á fæturna fannst mér ég vera stálpaður drengur með snúna fætur sem lá í rúmi í einhvers konar verstöð. Mér fannst það ekki vera hér á Íslandi frekar á Nýfundnalandi því
aðstæður voru líkar því sem ég hafði séð á myndum þaðan. Ég upplifði ýmsar tilfinningar en mér fannst þessar persónur sem ég sá samt fjarlægar mér. Ég skynjaði líðan þeirra meira
eins og maður finnur til með leikurum sem maður sér í kvikmynd fremur en sem eitthvað
sem ég sjálf væri að ganga í gegnum. En þetta var sérstök reynsla og mér leið mjög
undarlega lengi á eftir.“


„Ég raunverulega skynjaði allt það sem fram fór. Ég horfði með mínum augum á það og ég vissi að þetta var ég,“ segir tæplega þrítug kona. „Ég vissi af mér í þeim skilningi að ég heyrði í Katrínu en var engu að síður horfin inn í annan heim. Ein upplifunin var til að mynda á þann veg að mér fannst ég um borð í skipi. Það var svarta myrkur og ég var að
þreifa mig áfram. Ég fann fyrir myrkrinu og óttanum. Ég kom þar inn í káetu þar sem fullt
var af mönnum klæddum að hætti sjómanna fyrir löngu síðan. Mér fannst ég ung og verða
að þjónusta þessa menn og að mér hefði verið rænt. Ég upplifði fleira í þessu lífi en það er
sérkennilegt að ef ég les fréttir af börnum sem hverfa eða er rænt líður mér venjulega
mjög illa. Auðvitað snertir slíkt alla djúpt en mér hefur alltaf fundist óvenjulega erfitt að
lesa um slíkt og komast yfir það. Ég upplifði fleiri líf og þegar Katrín bað mig að horfa í
augun á því fólki sem ég mætti skynjaði ég að þarna var á ferð margt af því fólki sem er
samferðamenn mínir núna.“ Katrín segir það reyndar algengt að við hittum aftur og aftur sama fólkið, og jafnvel lendum í svipðuðum aðstæðum, því þarf enginn að undrast þótt margt af því sem fyrir ber sé kunnuglegt. Hún er bundin þagnarskyldu gagnvart skjólstæðingum sínum
og bendir líka á að dáleiðsluástand er í raun eitthvað sem menn framkalla sjálfir og ekki er
hægt að neyða þá til neins sem þeir ekki vilja gera í slíku ástandi. Dáleiðsla er heillandi og
sú veröld sem Katrín opnar ekki síðri. Eitt er þó alveg víst að hver og einn verður að svara
fyrir sig hvort hann hafi lifað áður eður ei.

bottom of page