top of page
Search
  • Writer's pictureKatrín Sandholt

Fyrri líf og andleg málefni.

Updated: Apr 30, 2023

Ég heiti Katrín A. Sandholt og er lengi búin að vera tengd inn á andleg málefni af ýmsu tagi. Ég stundaði framhaldsnám í Svíþjóð og komst þar í kynni við bæði dáleiðslu og Reiki heilun.Í daglegu amstri er auðvelt að hrífast með í hversdagsleikanum og ekki mikil hugsun fer í hver við erum eða hvers vegna við erum hér á þessari jörð.

Við höfum þó, þrátt fyrir að muna það ekki né gefa því gaum, alla þessa vitneskju með okkur. Við erum fullkomnar verur sem ákveðið hafa að lifa í ófullkomnum heimi, markmið okkar er skýrt en leiðin að því oft flókin og erfið.


Ég upplifði sterkustu minningu mína af fyrra lífi eftir erfiðan missir, ég var í mikilli sorg og tilfinningalega tætt og uppgefin. Mig dreymdi líf sem ég hafði lifað fyrir löngu síðan, lífið sjálft hafði verið erfitt og töluvert tilbreytingarlaust, en ég upplifði svo sterka ást.

Ástin var svo sterk að hún fylgdi mér lengi eftir og ég upplifði jafnvel djúpstæðan söknuð eftir manneskjunni úr fyrra lífi.

Þessi upplifun kom mér á bragðið með fyrri líf og kveikti hjá mér mikinn áhuga á öllu því tengdu.

Í framhaldi lærði ég dáleiðslutækni sem er sérhönnuð til þess að vinna með og skoða fyrri líf.

Ég útskrifaðist þaðan 2005 og má segja að þessi tími hafi gjörbreytt hugsunarhátti mínum og afstöðu til lífsins og alls þess sem við göngum í gegnum á okkar leið.


Ég hef starfað sem dáleiðslutæknir í öll þessi ár, en fannst vera kominn tími til þess að kynna þessar kenningar og fræði betur fyrir fólki.

Það er mín einlæga von að með þessum upplýsingum geti ég veitt einstaklingum hugarró og jafnvel hugarfarsbreytingu sem nýtist þeim á sinni einstöku leið í gegnum lífið.


Fyrri líf og andleg málefni


Dáleiðsla


Sú tækni sem ég notast við má líkja við leidda hugleiðslu, þessi tækni var fyrst þróuð af geðlæknum til þess að opna fyrir erfiðar æskuminningar skjólstæðinga.

Með tímanum kom þó í ljós að minningar fyrri lífa gerðu oftar vart við sig, margir fræðimenn töldu að þarna væri kominn einskonar ímyndaður veruleiki sem skjólstæðingarnir hefðu búið til innra með sér til þess að komast hjá því að upplifa og finna neikvæðar tilfinningar eða erfiðar minningar. Þegar menn fóru þó að geta rakið þessar frásagnir til einstaklinga sem höfðu í raun lifað eins og skjólstæðingurinn sagði frá fóru margir þeirra að skilja hversu magnað tól dáleiðsla er og fóru að vinna með dýrpi minningar sálarinnar til þess að aðstoða fólk í núverandi lífi.

Ástæður þess að fólk vill koma í dáleiðslu eru jafn misjafnar og fólk er margt, sumir hafa upplifað minningarbrot úr fyrri lífum og vilja skoða það betur á meðan aðrir vilja svala forvitni sinni. Margir eiga þó í erfiðleikum í sínu núverandi lífi sem virðist ekki eiga við nein augljós rök að styðjast, oft kemur þá í ljós að áföll og upplifanir úr fyrri lífum eru að hafa gífurleg hindrandi áhrif.

Sumir eiga við mikla dauðshræðslu að stríða og getur þá vitneskjan um fleiri líf og hvernig upplifunin er eftir dauða haft mikil jákvæð áhrif.


Mikil þekking og upplýsingar um einstaklinginn sjálfann koma í ljós í dáleiðslu, maður öðlast einskonar yfirsýn yfir lífið og tilveruna á djúpstæðu plani sem erfitt er að lýsa.


Þó einstaklingur trúi ekki á fyrri líf, mun dáleiðslan samt virka. Aðferðin hefur ekkert með trú eða yfirnáttúrulega hæfileika að gera, heldur snýst þetta aðeins um að ná þeirri djúpslökun sem þarf til þess að geta opnað fyrir gamlar minningar.

Þannig mun einstaklingurinn upplifa þær tilfinningar og minningar sem eru að hafa áhrif á núverandi líf, þegar sú upplifun er komin getum við farið að vinna úr áhrifunum.

Úrvinnslan hefst með vitneskju um ástæður tilfinninga eða hegðunamystra sem við erum að kljást við, en einnig mun orkan okkar hreinsa sig sjálf af því mari sem fylgdi okkur úr öðrum lífum með því að við skynjum og viðurkennum að uppruni marsins er ekki lengur í gildi og við sjáum að við getum haldið áfram heil.

Ég vonast til þess að geta komið frá mér nokkrum stuttum greinum í framtíðinni um þau málefni sem ég hef mestan áhuga á, reynslu minni af fyrri lífs dáleiðslu og ýmsu því tengt.


Mér þætti mjög gaman að heyra frá ykkur hver skoðun ykkar er og jafnvel reynsla á fyrri lífum. Endilega skiljið eftir athugasemd hér fyrir neðan!

237 views0 comments

Comments


bottom of page